Fyrirbyggjandi viðhald

Fyrirbyggjandi viðhald bátavéla er mikilvægt

Það er mikilvægt að huga að fyrirbyggjandi viðhaldi á Volvo Penta vélbúnaði tvisvar á hverju ári þegar gott tækifæri gefst til þess að skoða bátinn í næði. Það er á haustin þegar báturinn er tekinn upp og á vorin þegar hann er settur niður aftur.

Við förum hér í stuttu máli yfir það helsta sem þarf að hafa í huga þegar þetta er gert. Í eigendahandbók Volvo Penta vélbúnaðarins, eða „do-it-yourself“ má einnig finna ítarlega upplýsingar og það getur margborgað sig að lesa í gegnum þá handbók reglulega.

Hreint og þurrt er gott

Fyrsta vinnureglan á öruggum og snyrtilegum bát er að halda vélarrýminu hreinu og þurru. Hreint vélarrými auðveldar gott eftirlit, er ein megin forsenda þess að hægt sé að þjónusta vélbúnaðinn hratt og örugglega en einnig er mikilvægt að halda vélarrýminu hreinu öryggisins vegna.

Að hausti fyrir upptöku báts

Eftirfarandi er best að gera á meðan báturinn er enn í vatni/sjó:

 • Látið vél ganga þar til hún er orðin heit áður en olíu er tappað af. 
 • Skipta um mótorolíu og skipta um olíusíur. 
 • Skipta um olíu á gír. (innanborðs, ef til staðar) 
 • Skipta um eldsneytissíu og forsíu eldsneytis ef til staðar. 
 • Gangsetjið og keyrið vél upp í venjulegan vinnuhita. 
 • Takið bátinn upp úr vatni/sjó.

Eftirfarandi á að gera þegar báturinn er kominn upp úr vatni/sjó:

 • Hreinsið skrokk og drif strax eftir að báturinn er komin á þurrt. (áður en hann þornar)

ATH! Varast ber að nota háþrýstidælu á gúmmíhosur, á pakkdósir, tjakka og skrúfuöxla. 

 • Skiptið um olíu á drifi. 
 • Hreinsið sjósíu. 
 • Hreinsið og gangið frá sjókælikerfi með vatni blönduðu frostlegi. 
 • Fjarlægið sjódæluhjól úr dælu. Geymið dæluhjólið í lokuðum plastpoka á svölum stað. 
 • Kannið ástand á kælivökva og frostþol. Fyllið á ef með þarf. 
 • Tæmið allt botnfall í eldsneytistanki. Fyllið tank að nýju með eldsneyti til að koma í veg fyrir rakamyndun. 
 • Þrífið vél að utanverðu. Ekki nota til þess háþrýstidælu. Blettið í þau svæði á vélinni þar sem málning hefur hugsanlega flagnað. Notið til þess upprunalega Volvo Penta málningu. 
 • Skoðið alla stjórnbarka og meðhöndlið með ryðvarnarolíu. 
 • Takið rafgeyma úr sambandi. Þrífið, athugið vökvahæð og hlaðið rafgeyma. ATH! Illa hlaðnir rafgeymar geta sprungið vegna frostskemmda. 
 • Úðið íhluti rafkerfisins með rakafráhrindandi efni. 
 • Fjarlægið skrúfur af drifi fyrir vetrar-geymslu. Berið vatnsfráhrindandi feiti á skrúfuöxla. 
 • Þegar bátur er kominn í hús er gott að sjá til þess að það lofti vel um vélarsalinn, hafa hurðir og lúgur opnar til að koma í veg fyrir rakamyndun og myglu.


Að vori fyrir sjósetningu báts

 • Kannið smurolíuhæð á vél, drifi og gír. Fyllið upp ef þess þarf. 
 • Setjið sjódæluhjól í dælu að nýju. Skiptið um hjólið ef þurfa þykir. Vinsamlegast skoðið kaflann um „Sea Water System“. 
 • Lokið/herðið aftöppunartappa. 
 • Kannið ástand viftureima. 
 • Kannið ástand á hosum og herðið klemmur. 
 • Kannið hæð á kælivökva og frostþol. Fyllið á ef nauðsyn krefur. 
 • Tengið fullhlaðna rafgeyma.
 • Kannið zink á drifi. Ef það er minna en 1/2 eftir af því skal skipta um það. Þrífið undir zinki með smergilpappír. 
 • Setjið skrúfur á drif. 
 • Sjósetjið bát. Kannið hvort sjáanlegur leki sé einhversstaðar. 
 • Gangsetjið vél. Kannið hvort það sé einhver eldsneytis-, kælivökva- eða afgasleki og að stjórntæki öll virki eins og lög gera ráð fyrir.

Til samræmis við umhverfisstefnu Veltis viljum við líka minna á að gæta skal fyllsta hreinlætis og varkárni í umgengni við viðkvæma náttúru. Gætið þess að safna saman allri úrgangsolíu, kælivökva, smurefnum, málningu og fleiru sem getur fallið til við umhirðu bátsins og losið á næstu endurvinnslustöð til förgunar.

Hringdu í síma 515 7162  eða pantaðu tíma á vefnum og fáðu hagstætt pakkaverð í fyrirbyggjandi viðhald fyrir bátavélina þína.